Vinnutími

Vinnuvika starfsmanns í fullu starfi er 40 stundir, nema um skemmri vinnutíma sé sérstaklega samið. Meginreglan er sú að starfsmaður í fullu starfi skilar fullri vinnuskyldu vinni hann 8 tíma á dag 5 daga vikunnar, frá mánudegi til föstudags.

Dagvinna skal unnin á tímabilinu kl. 08 – 17 frá mánudegi til föstudags.  Til vinnutímans teljast tveir kaffitímar á venjulegum vinnudegi, 15 mínútur og 20 mínútur. Ef samið er um að fella þá niður, styttist vinnudagurinn um 35 mínútur.   Heimilt er að semja um sveigjanlegan vinnutíma á tímabilinu frá kl. 07 – 18 á virkum dögum, ef hægt er að koma því við og það hentar báðum aðilum.

Yfirvinna telst sú vinna sem fram fer utan tilskilins daglegs vinnutíma eða vaktar starfsmanns svo og sú vinna sem innt er að hendi umfram vikulega vinnutímaskyldu, þótt á dagvinnutíma sé.  Yfirvinnutímakaup er fundið með því að margfalda mánaðarlaun með 1,0385%.  Sé samið um frí á dagvinnutímabili fyrir unna yfirvinnu skal verðgildi yfirvinnu gilda (1 yfirvinnustund jafngildir 1 klst. og 48 mín. í dagvinnu).

Fari yfirmaður fram á að starfsmaður vinni yfirvinnu, þá getur starfsmaður óskað eftir að í stað yfirvinnugreiðslu, fái hann leyfi, þannig að gegn hverjum yfirvinnutíma komi 1,8 klst. í dagvinnu. Heimild þessi getur að hámarki numið 5 frídögum á hverju almanaksári.

Skylt er starfsmönnum að vinna yfirvinnu sem yfirmaður telur nauðsynlega. Þó er engum starfsmanni, nema þeim er gegnir öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur fimmtungi af umsömdum vikulegum vinnutíma.

Um vinnutímafyrirkomulag, vaktavinnu, bakvaktir, útköll, lágmarks hvíldartíma, vikulegan hvíldardag og annað skylt er nánar fjallað í 2. kafla kjarasamninga KVH og í fylgiskjölum um vinnutímasamninga (ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma).

Share This