Fæðingarorlof

Fæðingarstyrkur frá sjóðum BHM

Fæðingarstyrkur frá Styrktarsjóði BHM (opinberir starfsmenn) og/eða Sjúkrasjóði BHM (almennur vinnumarkaður) er til viðbótar við greiðslur Fæðingarorlofssjóðs. Fæðingarstyrkur er eingreiðsla og miðast við hvern félagsmann sem sækir um. Séu báðir foreldrar félagsmenn geta báðir sótt um fæðingarstyrk. Sjá nánar um fæðingarstyrk á heimasíðu sjóðanna.

 

Fæðingarorlof og foreldraorlof

Fæðingarorlof og foreldraorlof eru hvort tveggja leyfi frá launuðum störfum sem stofnast við fæðingu barns, frumættleiðingu barns yngra en átta ára eða töku barns yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Helsti munurinn á fæðingarorlofi annars vegar og foreldraorlofi hins vegar er sá að starfsmaður í fæðingarorlofi á jafnan rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun en starfsmaður í foreldraorlofi á ekki rétt á greiðslum, hvorki frá Vinnumálastofnun né hlutaðeigandi stofnun/vinnuveitanda.

  • Fæðingarorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt í allt að þrjá mánuði og foreldrar eiga þar að auki sameiginlegan rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða þeir skipt á milli sín. Sjá nánar lög nr. 95/2000.
  • Foreldraorlofsrétturinn skiptist þannig að hvort foreldri um sig á sjálfstæðan og óframseljanlegan rétt til fjögurra mánaða til að annast barn sitt (2 x 4 mán. fyrir hvert barn).

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjárvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar, án frádráttar á föstum launum, þurfi slík skoðun að fara fram á vinnutíma.

Meðan á fæðingarorlofi og foreldraorlofi stendur nýtur starfmaður tiltekinnar verndar gegn uppsögn. Óheimilt er að segja honum upp störfum nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir þungaðrar konu og konu sem nýlega hefur alið barn.

Meðan á fæðingarorlofi stendur greiðir foreldri að lágmarki 4% af fæðingarorlofsgreiðslum í lífeyrissjóð og Fæðingarorlofssjóður greiðir að lágmarki 8%. Einnig er foreldri heimilt að greiða í séreignarsjóð (ekki er greitt mótframlag) og félagsgjald til stéttarfélags. Fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum.

Ávinnsla í fæðingarorlofi
Sjá nánar vefsvæði Fæðingarorlofssjóðs.

 

Share This