Endurmenntun / fræðsla

Endurmenntun og framhaldsmenntun er sérlega mikilvæg fyrir háskólamenntaða starfsmenn og þeir almennt áhugasamir um að auka við þekkingu sína og færni.

Í kjarasamningum KVH eru sérstakir kaflar um endurmenntun (10. kafli hjá ríki og sveitarfélögum, 11. kafli hjá Reykjavíkurborg og kafli 5.5  hjá SA).   Í samningunum eru ákvæði um launuð námsleyfi, launalaus leyfi og mismunandi greiðslur vinnuveitenda í viðkomandi sjóði, þ.e. Starfsmenntunarsjóð, Starfsþróunarsetur og Vísindasjóð KVH. Um úthlutunarreglur þessara sjóða má lesa nánar hér á vef KVH.  Mikilvægt er að félagsmenn KVH á almennum vinnumarkaði semji í ráðningarsamningum sínum um greiðslu vinnuveitanda í Vísindasjóð KVH og Starfsþróunarsetur háskólamanna, en það er valkvætt á almenna vinnumarkaðinum.

Yfirleitt er möguleiki starfsmanns til að sækja sér endurmenntun eða fara í nám meðfram starfi háð heimild og skilningi vinnuveitanda. Hins vegar var gerð mikilvæg breyting í kjarasamning við ríkið, þar sem starfsmaður með fjögurra ára starfsreynslu hjá sömu ríkisstofnun á nú rétt á leyfi til að stunda endurmenntun/framhaldsmenntun á reglubundnum launum (sjá gr. 10.1.1).  Þessi réttur uppsafnaður getur mest orðið 6 mánuðir. Í bókun 4 með kjarasamningi við ríkið er þó varnagli sem getur heimilað stofnun að takmarka fjölda þeirra sem nýta sér þennan rétt árlega.

Félagsmenn KVH eru eindregið hvattir til að kynna sér möguleika á styrkjum til endurmenntunar úr sjóðum BHM og láta jafnframt reyna á heimildarákvæði samninga og/eða rétt sinn til endurmenntunar eins og kjarasamningar gera ráð fyrir.

Stöðugt bætist við þekkingarbrunn hag- og viðskiptafræða bæði með nýjum akademískum rannsóknum, framþróun í hugbúnaði og tækni, og reynslu úr atvinnulífinu innanlands og utan. Aukin þekking og hæfni eru sameiginlegir hagsmunir starfsmanna og vinnuveitanda.

Share This